Í september árið 1965 auglýsti póstmeistarinn í Reykjavík eftir ungum konum til að starfa við bréfaútburð. Fram að því höfðu eingöngu karlmenn séð um póstburð í borginni yfir vetrarmánuðina. Í auglýsingunni var sérstaklega óskað eftir konum á aldrinum 18 – 40 ára, og tekið fram að starfið hentaði sérstaklega vel fyrir ungar húsmæður.
Á sjöunda áratugnum var íslenskt samfélag að ganga í gegnum miklar breytingar. Flestar giftar konur voru ekki virkar á vinnumarkaði heldur heima að gæta bús og barna, enda var það talið fullt starf. Þegar auglýsingin birtist sóttu margar konur um starfið, og var það fréttnæmt efni í dagblöðum. Margir eiginmenn brugðust við með undrun eða vanþóknun þegar þeir sáu eiginkonur sínar nefndar opinberlega í dagblöðum. Það þótti frekar lítillækkandi að konur tækju upp störf utan heimilis og margir álitu það til marks um að eiginmaðurinn væri ekki nægilega góð fyrirvinna.
Að konur bæru út póst var nánast óþekkt á Íslandi, þó að hugmyndin hefði komið upp áður. Þegar fyrstu konurnar voru ráðnar í starfið var starfshlutfall þeirra 50%, og þær gátu valið hvort þær ynnu fyrir eða eftir hádegi.

Skoði maður auglýsinguna má sjá að forsvarsmenn Póstsins höfðu greinilega í huga að þessi nýja stétt bréfbera yrði samansett af glæsilegum konum í dragt, á hælum og með hatt, líkt og flugfreyjur. Þetta er einhverskonar tálsýn því öll almenn skynsemi segir að vetrarveður á Íslandi samþykki nú ekki slíkan búning fyrir útivinnu.
Vert er að nefna að konur sem störfuðu hjá stofnuninni höfðu hingað til verið skyldaðar til að klæðast pilsum, og var notkun síðbuxna stranglega bönnuð. Nýju kvenkyns bréfberarnir létu það þó ekki stöðva sig og sinntu sínum störfum í síðbuxum, sannfærðar um að þær brytu þar engin landslög. Vitað er til þess að sumar þeirra voru kallaðar fyrir póstmeistara vegna þessa „brotlega“ tiltækis að mæta til vinnu í buxum.
Í ódagsettum skjölum frá Póststofunni kemur fram hvernig umsóknir þessara kvenna voru metnar og hvernig um þær var fjallað. Þar má finna athugasemdir á borð við: „Konan er mjög hreinleg og prúð, gift, tveir í heimili.“ „Ógift. Rösklegur kvenmaður.“ „Sæmileg, nokkuð gömul.“ Nokkrar fengu einnig umsögnina „Myndarkona.“ Sérstaklega athyglisverð var þó ein umsögnin sem hljóðaði svo: „Myndarkona. Á einn mann.“
Í upphafi voru allir kvenkyns bréfberar utan stéttarfélaga, þar sem lög Póstmannafélagsins heimiluðu ekki inngöngu nýrra félaga nema starfshlutfall þeirra væri 100%. Þær reyndu ítrekað að ganga í félagið en án árangurs, alltaf var vísað í ákvæðið um starfshlutfall. Konurnar sem störfuðu í fullu starfi við póstafgreiðslu voru hins vegar félagar í Póstmannafélaginu frá upphafi.
Eftir að hafa fengið neitun frá Póstmannafélaginu leituðu bréfberakonurnar til annarra stéttarfélaga, en án árangurs. Þær áttu meðal annars viðræður við Alþýðusamband Íslands og Verkamannafélagið Dagsbrún. Þáverandi formaður Dagsbrúnar taldi að þær ættu ekki heima innan félagsins, þótt hann lýsti yfir fullum stuðningi við kjarabaráttu þeirra. Að lokum veitti Verkamannasambandið þessum stéttvísu konum aðstoð við gerð síns fyrsta kjarasamnings.
Eftir að hafa komið að lokuðum dyrum hvar sem þær leituðu ákváðu kvenkyns bréfberar að stofna sitt eigið félag. Til stofnfundarins, sem haldinn var árið 1967, voru boðaðar nær þrjátíu konur, en þrettán þeirra mættu og lögðu þar grunninn að félaginu. Frá upphafi var markmið þess að skapa vettvang þar sem félagskonur gætu sameinast í baráttunni fyrir auknum réttindum.
Þessar konur höfðu engan þann rétt sem þótti sjálfsagður hjá flestum launþegum. Félagar í Póstmannafélaginu sem unnu við hlið þessara kvenna höfðu í áranna rás fengið í sína samninga, sem ríkisstarfsmenn, umtalsverð lífeyrissjóðsréttindi, greiðslur fyrir yfirvinnu, sumarorlof í allt að 24 daga og 36 stunda vinnuviku, svo eitthvað sé upptalið. Karlkyns bréfberar í fullu starfi nutu þessara kjara, svo konurnar í nýja stéttarfélaginu höfðu að nógu að keppa.
Á komandi árum náðu þær, með mikilli samstöðu og dugnaði, að tryggja sér öll helstu réttindi sem aðrir launþegar höfðu. Samheldni félagskvennanna í Póstfreyjufélaginu kom sérstaklega skýrt fram þegar rætt var um að hætta póstútburði á laugardögum. Þær tóku sig þá saman og hófu undirskriftasöfnun meðal almennings á höfuðborgarsvæðinu með góðum árangri. Mikill meirihluti þeirra sem svöruðu studdi kröfu þeirra og árið 1973 varð laugardagsfrí bréfbera að veruleika.
Félagskonur voru þó enn óánægðar með að fá ekki inngöngu í Póstmannafélagið og njóta þar sams konar réttinda og skyldna og karlarnir. Að auki hafði stjórn BSRB lengi verið þeirrar skoðunar að félögin ættu að sameinast. Barátta kvennanna bar loks árangur haustið 1973, þegar samkomulag náðist milli félaganna um að póstfreyjur gengju inn í Póstmannafélagið með fullum félagsréttindum frá og með 1. október sama ár. Nauðsynlegar lagabreytingar voru síðan samþykktar á aðalfundi Póstmannafélags Íslands í maí 1974 og þar með lauk formlega sameiningu félaganna.