1 Orlof
1.1 Lengd orlofs
Lágmarksorlof er 24 virkir dagar (tveir orlofsdagar ávinnast fyrir hvern unninn mánuð á orlofsárinu). Orlofslaun eru 10,17% af heildarlaunum.
- Eftir 5 ár í sömu starfsgrein skal starfsmaður hafa 25 daga orlof og skulu orlofslaun vera 10,64%.
- Eftir 5 ár í sama fyrirtæki skal starfsmaður hafa 27 daga orlof og skulu orlofslaun vera 11,59%.
- Eftir 10 ár í sama fyrirtæki skal starfsmaður hafa 30 daga orlof og skulu orlofslaun vera 13,04%.
Áunninn réttur vegna starfa í sama fyrirtæki endurnýjast eftir þriggja ára starf hjá nýju fyrirtæki, enda hafi hann verið sannreyndur. Heimilt er að veita orlof umfram 20 daga að vetri nema um annað hafi samist.
1.2 Orlofstaka utan orlofstímabils
Þeir sem samkvæmt ósk vinnuveitanda fá ekki 21 dags sumarfrí á þeim tíma sem lög gera ráð fyrir að sumarfrí sé almennt tekið, þ.e. á tímabilinu frá 2. maí – 15. september ár hvert, skulu fá 25% lengingu á þann hluta orlofs sem veitt er utan ofangreinds tíma eða greiðslu sem því nemur.
1.3 Ákvörðun orlofstöku
Íslandspóstur hf. ákveður í samráði við starfsmann hvenær orlof skuli veitt.
1.4 Veikindi í orlofi
Veikist launþegi hér innanlands í orlofi það alvarlega að hann geti ekki notið orlofsins skal hann á fyrsta degi, t.d. með símskeyti, tilkynna vinnuveitanda um veikindin og hjá hvaða lækni hann hyggst fá læknisvottorð.
Sama gildir ef starfsmaður veikist í landi innan EES-svæðisins, Sviss, Bandaríkjunum eða Kanada, það alvarlega að það leiði til sjúkrahúsvistar (einn eða fleiri dagar).
Fullnægi hann tilkynningunni, og standi veikindin samfellt lengur en þrjá sólarhringa innanlands eða 3 sólarhringa innan EES svæðisins, Sviss, Bandaríkjunum eða Kanada, á launþegi rétt á uppbótarorlofi jafn langan tíma og veikindin sannanlega vöruðu. Undir framangreindum kringumstæðum skal launþegi ávallt færa sönnur á veikindi sín með læknisvottorði. Íslandspóstur hf. á rétt á að láta lækni vitja launþega er veikst hefur í orlofi.
1.5 Orlofslög
Að öðru leyti fer um orlof samkvæmt lögum um orlof nr. 30/1987
1.6 Orlofsuppbót
Orlofsuppbót fyrir hvert orlofsár (1.5. til 30.4) miðað við fullt starf er:
- Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2019 verði orlofsuppbót kr. 50.000
- Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2020 verði orlofsuppbót kr. 51.000
- Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2021 verði orlofsuppbót kr. 52.000
- Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2022 verði orlofsuppbót kr. 53.000
Uppbótin greiðist þann 1.6. miðað við starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum m.v. 30.4. eða eru í starfi 1.5.
Orlofsuppbót innifelur orlof, er föst tala og tekur ekki breytingum skv. öðrum ákvæðum.
Áunna orlofsuppbót skal gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótanna.
1.7 Orlofssjóður
Íslandspóstur hf. greiðir í orlofssjóð Póstmannafélags Íslands 0,4 % af heildarlaunum félagsmanna. Þetta er gert ársfjórðungslega eftirá, skv. útreikningum Íslandspósts hf.