Reglugerð sjúkrasjóðs

SAMÞYKKT Á AÐALFUNDI PFÍ 24. APRÍL 1998. 
SÍÐAST BREYTT Á AÐALFUNDI 2020

1.gr. Nafn sjóðsins og heimili 

1.1 Sjóðurinn heitir Sjúkrasjóður Póstmannafélags Íslands, hér eftir í texta þessum skammstafað PFÍ.

1.2 Sjúkrasjóður PFÍ og er stofnaður samkvæmt kjarasamningi PFÍ og FÍS við Póst og síma hf. / Íslandspóst hf.

1.3 Sjúkrasjóður PFÍ er eign Póstmannafélags Íslands. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

2.gr. Verkefni sjóðsins

2.1 Verkefni sjóðsins er að veita sjóðsfélögum Sjúkrasjóðs PFÍ, fjárhagsaðstoð í veikinda- og slysatilvikum en maka eða eftirlifandi börnum ef sjóðsfélagi deyr. Sjóðsfélagar eru félagsmenn PFÍ sem skilað hefur verið framlagi fyrir til sjóðsins í a.m.k. sex mánuði og þeir sem sjálfir skila eða hafa skilað framlagi til sjóðsins.

3. gr. Tekjur

3.1 Tekjur sjóðsins eru skv.7. gr. laga nr. 19, 1. maí 1979, samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins.

3.2 Vaxtatekjur og annar arður.

3.3 Gjafir, framlög og styrkir.

3.4 Aðrar tekjur sem aðalfundur félagsins kann að ákveða hverju sinni.

4. gr. Stjórn og rekstur

4.1 Stjórn sjóðsins skal kosin á aðalfundi PFÍ. Skal hún skipuð fimm mönnum, til tveggja ára í senn og tveim til vara. Stjórnin ber ábyrgð á öllum fjárreiðum sjóðsins.

4.2 Stjórnun sjóðsins skal vera í samræmi við þau sjónarmið sem gilda skv. Almennum stjórnsýslureglum.

4.3 Heimilt er að fela skrifstofu PFÍ fjárreiður og umsjón með sjóðnum. Halda skal bókhaldi sjóðsins aðskildu frá öðrum fjárreiðum PFÍ.

4.4 Ávallt skulu liggja fyrir gögn um hvaða einstaklingar geti átt rétt til greiðslu úr sjóðnum.

5. gr. Reikningar og endurskoðun

5.1 Reikningar sjóðsins, áritaðir af stjórn hans og löggiltum endurskoðanda, skulu lagðir fyrir félagskjörna skoðunarmenn PFÍ og aðalfund til samþykktar.

6. gr. Úttekt óháðra eftirlitsaðila

6.1 Fimmta hvert ár að minnsta kosti skal stjórn sjóðsins fá tryggingafræðing eða löggiltan endurskoðanda til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins og semja skýrslu til stjórnar um athugun sína.

6.2 Við mat á framtíðarstöðu sjóðsins skal tilgreina rekstrarkostnað, ávöxtun sjóðsins og hvort sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar. Sérstaka grein skal gera fyrir áhrifum á afkomu sjóðsins vegna ákvarðana skv. grein 12.3.

6.3 Geti sjóðurinn ekki staðið við skuldbindingar sínar skv. niðurstöðu úttektarinnar ber stjórn sjóðsins að leggja fyrir aðalfund tillögu að breytingu á reglugerð sem tryggir að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

7. gr. Ávöxtun sjóðsins

7.1 Heimilt er að ávaxta fé sjóðsins með eftirfarandi hætti

  1. í ríkisskuldabréfum eða skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs,
  2. með kaupum á markaðsskráðum verðbréfum,
  3. í bönkum, sparisjóðum eða sambærilegum peningastofnunum,
  4. á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan.

8. gr. Ráðstöfun fjármuna

8.1

  1. Ávallt skal þess gætt að ráðstöfun fjármuna sjóðsins brjóti ekki í bága við tilgang hans eða verkefni.
  2. Þegar um er að ræða ráðstöfun fjármuna til verkefna sem ekki falla undir megin tilgang sjóðsins, með beinum hætti skal tryggt að um eðlilega ávöxtun þess fjármagns sé að ræða, sbr a, b og c lið greinar 7.1

9. gr. Grundvöllur styrkveitinga úr sjúkrasjóði

9.1 Rétt til styrkveitinga úr sjóðnum eiga sjóðsfélagar sem uppfylla almenn skilyrði styrkveitingar hverju sinni þ.m.t. um lágmarksgreiðslutíma iðgjalds. Stjórn sjóðsins skal á hverjum tíma fylgjast með því að reglur um styrkveitingar séu í samræmi við fjárhagsstöðu sjóðsins og þarfir sjóðsfélaga eftir því sem unnt er.

9.2 Þeir sem skilað hefur verið framlagi fyrir til sjúkrasjóðsins, en hafa ekki náð lágmarki, eiga rétt til bóta skv. 10. gr. í hlutfalli við greiðslu viðkomandi.

9.3 Heimilt er að veita dánarbætur maka eða börnum þeirra sem láta af störfum eftir að 67 ára aldurstakmarki er náð. Slíkar bætur geta þó aldrei numið hærri fjárhæð en ákv. % greidds framlags vegna viðkomandi.

9.4 Heimilt er að veita þeim sem gengst undir starfsþjálfun, sækir námskeið eða stundar nám í allt að 24 mánuði og hefur síðan aftur störf á vinnumarkaði, endurnýjaðan bótarétt þegar greitt hefur verið til sjóðsins í einn mánuð, hafi umsækjandi áður verið fullgildur sjóðsfélagi. Sama gildir um þá sem hverfa frá vinnu vegna barnsburðar, veikinda eða af heimilisástæðum.

10. gr. Styrkveitingar

Bótaflokkar sjóðsins eru:

10.1 Sjúkra- og slysadagpeningar. Sjóðurinn greiðir sjúkra- og slysadagpeninga ef launatekjur sjóðsfélaga falla niður sökum veikinda eða slysa. Einnig er heimilt að greiða dagpeninga ef launatekjur falla niður vegna veikinda maka eða barna. Dagpeningar skulu vera ákveðinn hluti af byrjunarlaunum viðkomandi stéttarfélags miðað við fullt starf og miðast við starfshlutfall viðkomandi. Skulu dagpeningar greiddir að hámarki í 180 daga, en þó aldrei lengur en veikindi eða óvinnufærni varir. Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um bótafjárhæðir og tímalengd greiðslu. Skal stjórnin ætíð taka mið af fjárhagsstöðu sjóðsins á hverjum tíma.

10.2 Stjórn sjóðsins er heimilt að stofna til annarra bótaflokka í formi líftrygginga/dánarbóta, slysatrygginga og annarra heilsufarstrygginga

10.3 Sá sem fullnýtt hefur rétt sinn til sjúkradagpeninga ávinnur sér rétt að nýju þegar hann hefur greitt til sjóðsins í sex mánuði eftir að hann hefur störf að nýju.

10.4 Heimilt er stjórn sjóðsins að veita styrki til sjóðsfélaga í formi forvarnar og endurhæfingarstyrkja og styrkja vegna sjúkra- og slysakostnaðar.

10.5 Við ráðstöfun fjármuna skv. 8.1 og skal þess gætt að möguleiki sjóðsins til að standa við upphaflegar skuldbindingar sínar vegna sjúkdóma og slysa skerðist ekki. Í reglulegri úttekt á afkomu sjóðsins, skv. 6. gr., skal úttektaraðili skoða þennan þátt sérstaklega.

11. gr. Lausn frá greiðsluskyldu

Ef farsóttir geisa getur sjóðstjórn leyst sjóðinn frá greiðsluskyldum sínum um stundarsakir. Einnig getur sjóðsstjórn ákveðið að lækka um stundarsakir upphæð dagpeninga ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin.

12. gr. Tilhögun greiðslna úr sjóðnum

12.1 Afgreiðsla sjóðsins skal vera á skrifstofu PFÍ og greiðir sjóðurinn allan kostnað sem af rekstri hans leiðir.

12.2 Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um fyrirkomulag á greiðslu dagpeninga og aðra starfstilhögun.

12.3 Stjórn sjóðsins og starfsmenn hans skulu hafa að leiðarljósi almennar stjórnsýslureglur um meðferð upplýsinga um umsóknir og afgreiðslu sjóðsins.