Starfsmenntunarsjóðs
1. gr.
Sjóðurinn heitir Starfsmenntunarsjóður Póstmannafélags Íslands og starfar hann með því skipulagi og markmiði sem segir í reglugerð þessari. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr.
Markmið sjóðsins eru:
Að félagsmenn beri ekki kostnað af né verði fyrir tekjutapi af námi sem beinlínis er við það miðað að þeir geti tileinkað sér framfarir og tæknibreytingar á sínu sérsviði.
Að starfsmenn eigi án verulegs kostnaðar, kost á námskeiðum sem geri þeim mögulegt að taka að sér vandasamari störf en þeir gegna.
Ef störf eru lögð niður vegna tækni- eða skipulagsbreytinga eiga starfsmenn, án tilkostnaðar, kost á endurhæfingarmenntun sem geri þeim mögulegt að taka að sér önnur störf með óbreyttum tekjumöguleikum.
3. gr.
Stjórn sjóðsins skal skipuð tveimur mönnum og tveimur til vara sem kosnir eru á aðalfundi félagsins til þriggja ára í senn. Íslandspóstur skipar einn mann og einn til vara. Stjórnin skal halda gerðarbók og rita í hana allar samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt þarf meirihluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði.
Stjórn sjóðsins er heimilt, telji hún þess þörf að ráða starfsmann er inni af hendi nauðsynleg störf til þess að tryggja að sjóðurinn sinni því hlutverki sem honum er ætlað.
4.gr.
Tekjur sjóðsins eru:
- Framlag eins og umsamið er í kjarasamningi. Um skil á framlagi fyrirtækisins til sjóðsins skal höfð hliðsjón af reglum er gilda um skil á orlofsfé.
- Vaxtatekjur.
Tekjum sjóðsins skal einungis varið í samræmi við markmið hans, sbr. 2. gr.
5.gr.
Til þess að annast hlutverk sitt skal sjóðurinn beita sér fyrir námskeiðum og annarri fræðslustarfsemi er lýtur að aukinni starfsmenntun sjóðfélaga eða endurhæfingarnámi þeirra. Starfsemi þessa er honum heimilt að rækja í samvinnu við aðra aðila.
Þá er sjóðstjórn m.a. heimilt að veita neðangreindum aðilum fjárstyrki úr sjóðnum til eftirtalinna viðfangsefna samrýmist þau markmiðum þeim sem að er stefnt, sbr. 2.gr.
- Einstaka sjóðsfélaga til:
- Að sækja námskeið eða stunda nám innanlands eða utan.
- Rannsókna eða ákveðinna verkefna sem teljast til endurmenntunar þeirra.
- PFÍ vegna námskeiðahalds á vegum þess eða í samstarfi við aðra.
6.gr.
Þeir sem æskja styrks úr sjóðnum skulu senda stjórn sjóðsins umsókn þar að lútandi þar sem fram kemur lýsing á því námi eða verkefni sem styrkurinn skal renna til, áætlaður kostnaður, hvenær fyrirhugað er að stunda námið eða verkefnið sem sótt er um styrk út á og aðrar þær upplýsingar er sjóðstjórn kann að telja nauðsynlegar.
Á grundvelli þeirra tekur sjóðstjórn ákvörðun um hvort og hve háan styrk viðkomandi umsækjandi skuli fá. Að jafnaði skal aðeins veita styrk vegna umsóknar sem lýtur að væntanlegum kostnaði umsækjanda. Þó getur sjóðstjórn veitt styrk vegna kostnaðar sem þegar hefur verið stofnað til innan viðkomandi reikningsárs, telji hún slíkt nauðsynlegt vegna sérstæðra ástæðna. Úthlutun styrkja úr sjóðnum skal að jafnaði fara fram a.m.k. ársfjórðungslega.
7.gr.
Reikningsár sjóðsins skal vera almanaksárið. Reikningar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og kjörnum skoðunarmönnum reikninga PFÍ. Skrifstofa PFÍ skal sjá um bókhald sjóðsins. Að öðru leyti er stjórn sjóðsins heimilt að semja við aðra aðila um störf þau sem nauðsynlegt er að vinna til að tryggja starfrækslu sjóðsins.
8.gr.
Árlega skal stjórn sjóðsins gera skýrslu þar sem gerð er grein fyrir fjárhag hans og starfsemi síðastliðið reikningsár. Skal skýrsla þessi send þeim sem eru aðilar sjóðsins.
Á hverjum aðalfundi PFÍ skal stjórn sjóðsins gera grein fyrir störfum hans og leggja fram endurskoðaða reikninga.
9.gr.
Reglur þessar sem settar eru samkvæmt ákvæðum kjarasamnings milli PFÍ og Pósts og síma hf. öðlast gildi hinn 1. janúar 1998. Þeir atvinnurekendur sem síðar vilja gerast aðilar að reglum þessum, gera það með skriflegri beiðni til sjóðstjórnar um að þeir óski eftir að gerast aðilar að þessum sjóði og að þeir gangist undir reglur þessar. Slík beiðni öðlast gildi þegar sjóðstjórn hefur samþykkt slíkt erindi.
Ákvæði til bráðabirgða
Stjórn Póstmannafélags Íslands skal skipa fyrstu stjórn sjóðsins og er kjörtímabil hennar fram að næsta aðalfundi félagsins.
Reykjavík 6. janúar 1998.