Starfsreglur stjórnar sjúkrasjóðs Póstmannafélags Íslands
Sjúkra og slysadagpeningar
Sjúkrasjóður PFÍ greiðir sjúkradagpeninga ef sjóðfélagi verður, sökum veikinda eða slysa, óvinnufær og launatekjur falla niður. Heimilt er að tekjutengja sjúkradagpeninga við meðallaun.
Sjúkradagpeningar greiðast í allt að 120 daga á hverjum 12 mánuðum. Hver umsækjandi fær aðeins samþykkta umsókn til 90 daga að þeim liðnum þarf að sækja um framlengingu að hámarki 30 daga í viðbót. Sjóðfélagi með 360 daga veikindarétt á ekki rétt á sjúkradagpeningum. Skila þarf læknisvottorði í hverjum mánuði. Sjúkrasjóðurinn áskilur sér rétt til að fá álit læknis á óvinnufærni umsækjenda. Dagpeningar greiðast ekki lengur en ráðningu sjóðfélaga er ætlað að standa.
Sjóðfélagi sem greitt hefur verið af til sjóðsins næstliðna sex mánuði öðlast rétt til greiðslu sjúkradagpeninga frá þeim tíma er samningsbundinni eða lögboðinni kaupgreiðslu lýkur. Upphæð dagpeninga er alltaf fundin með því að nota deilitöluna 6 við útreikning meðaltalslauna. Sjúkradagpeningar skulu vera 80% af meðallaunum. Greiðslutímabil er styttra ef ekki hefur verið skilað í 6 mánuði og er sama tímalengd og starfsaldur umsækjanda. Dagpeningar greiðast í að hámarki í 120 daga ef greitt hefur verið fyrir umsækjanda í 6 mánuði samfellt.
Dagpeningar greiðast þegar sjóðfélagi hefur verið launalaus a.m.k. 5 virka daga samfellt eða lengur en er þá greitt frá þeim degi er launagreiðslum lýkur. Réttur til dagpeninga stofnast ekki ef sjóðfélagi á rétt á greiðslum fyrir tímabundið tekjutap á grundvelli skaðabótalaga svo sem í kjölfar umferðarslysa. Sá sem fullnýtt hefur rétt sinn til sjúkradagpeninga ávinnur sér rétt að nýju þegar greitt hefur verið fyrir hann til sjóðsins í 12 mánuði.
Heimilt er að úrskurða dagpeninga afturvirkt í allt að 3 mánuði frá því að umsókn barst sjóðnum. Dæmi; sjóðfélagi hefur nýtt sinn veikindarétt hjá vinnuveitanda og er launalaus frá 1. júlí. Hann sækir um sjúkradagpeninga og skilar læknisvottorði í desember. Hann fær ekki greitt afturvirkt nema september, október og nóvember, en getur, ef hann er enn óvinnufær fengið greitt í allt að 6 mánuði samtals.
Réttur til dagpeninga fellur niður þegar/ef sjóðfélagi öðlast rétt til greiðslu elli, örorku og/eða endurhæfingarlífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóði. Sjóðfélaga er skylt að leggja inn umsókn um örorkumat til Tryggingastofnunar og/eða lífeyrissjóðs er hann hefur verið frá störfum vegna veikinda í samfellt 6 mánuði eða lengur og gefa sjóðsstjórn upplýsingar um niðurstöður matsins. Stjórn sjúkrasjóðsins er skylt að benda umsækjendum á að sækja sér aðstoð hjá starfshæfingarráðgjafa Virk.
Heimilt er að greiða sjúkradagpeninga vegna veikinda á meðgöngutíma, enda komi ekki dagpeningagreiðsla fyrir sama tímabil frá öðrum aðilum. Greiða má sjúkradagpeninga út sjöunda mánuð meðgöngu. Kona sem er veik á meðgöngu á rétt á að fara í fæðingarorlof hjá Tryggingastofnun ríkisins allt að tveimur mánuðum fyrir áætlaða fæðingu barns án þess að skerða rétt sinn til allt að sex mánaða fæðingarorlofs, eftir fæðingu barns (sjá lög um fæðingarorlof). Undanþágur frá þessari reglu má veita í sérstökum tilfellum.
Heimilt er að greiða dagpeninga til sjóðfélaga vegna meiriháttar veikinda barna yngri en 13 ára í allt að 120 daga, hafi viðkomandi verið launalaus í 3 daga eða lengur.
Réttur til dagpeninga fellur niður ef viðkomandi sjóðfélagi fær 50% umönnunarbætur eða meira frá Tryggingastofnun ríkisins.
Heimilt er sjóðstjórn að greiða hluta dagpeninga, ef sjóðfélagi getur ekki vegna sjúkdóms eða slyss stundað fulla vinnu.
Heimilt er að greiða styrk vegna langvarandi veikinda maka sjóðfélaga í allt að 75 daga, enda missi sjóðfélagi launatekjur vegna þeirra í þrjá daga eða lengur, allt eftir nánari ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar hverju sinni. Réttur til dagpeninga vegna veikinda maka fellur niður ef viðkomandi sjóðfélagi fær 50% umönnunarbætur eða meira frá Tryggingastofnun ríkisins.
Atvinnulausir sjóðfélagar eiga rétt til sjúkradagpeninga í að hámarki 45 daga.
Heimilt er að greiða styrk í eitt skipti, sem svarar sjúkradagpeningum samtals í allt að 60 daga vegna sjúkdóms sem stafar af ofneyslu áfengis eða annarra vímugjafa.
Breytingar voru gerðar á starfsreglum sjóðsins 27. nóvember 2019.