Skipulagsskrá fyrir Póstmannasjóð

1. gr.
Sjóðurinn heitir Póstmannasjóður Íslandspóst hf. Heimili hans er að Höfðabakka 9d, í Reykjavík.
Sjóðurinn var upphaflega stofnaður samkvæmt skipulagsskrá fyrir Póstmannasjóð kt. 460176-0269 nr. 49/1923

2. gr.
Hlutverk sjóðsins er að styrkja þá starfsmenn Íslandspósts hf., sem hafa póststörf að aðalstarfi að mati sjóðsstjórnar, til menntunar í starfi hérlendis eða erlendis, til ferðalaga í hvíldar- og hressingarskyni, að verðlauna einstaka starfsmenn er sýnt hafa af sér dugnað, trúmennsku og samviskusemi í starfi, enn fremur þá er hafa unnið einhver þau störf er gildi hafa fyrir starfsmenn eða starfsmannafélög Íslandspósts hf., hagnýt eða fræðandi, svo og að styrkja fræðslufundi og námskeiðahald fyrir starfsmenn, útgáfustarfsemi, orlofsheimili starfsmanna og aðra menningarstarfsemi þeirra. Þá er það hlutverk sjóðsins að styrkja með árlegum framlögum sjóði er kunna að vera stofnaðir til hagsbóta fyrir starfsmenn.
Þá er það hlutverk sjóðsins að styrkja með árlegum framlögum, sjóði, er kunna að vera stofnaðir til hagsbóta fyrir póstmenn, svo sem Fasteignalánasjóð póstmanna, Styrktarsjóð póstmanna, svo og Póstminjasafn.

3. gr.
Tekjur sjóðsins eru vextir af innistæðum sjóðsins (ávöxtun).

4.gr.
Við stofnun sjóðsins þann 27. janúar 1971, var stofnfé kr. 4.000.000.
Við úthlutun styrkja og framlaga skal þess gætt að eigið fé sjóðsins rýrni ekki að raunvirði

5.gr.
Stjórn sjóðsins skipa 3 aðila og 3 til vara:
Aðalstjórn skipa forstjóri Íslandspósts hf., eða sá sem hann tilnefnir í sinn stað, og tveir fulltrúar starfsmanna.
Skulu þessir tveir síðastnefndu fulltrúar tilnefndir annars vegar af stjórn Póstmannafélags Íslands og hins vegar af stjórn Starfsmannafélags Íslandspósts hf.Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti.
Starfstími stjórnar er 3 ár í senn.
Stjórnin skiptir með sér verkum.
Stjórnarákvörðun er eigi lögmæt nema stjórnin sé fullskipuð.
Afl atkvæða ræður úrslitum.Stjórn sjóðsins heldur fundi þegar að ástæða er til og skal halda fundargerðarbók.
Aðalstjórnarfundur skal haldinn fyrir lok maí ár hvert. Stjórnin er ólaunuð.

6.gr.
Stjórnin veitir styrki og innir af hendi framlög, gerir ársreikninga og annast að öðru leyti um það sem skipulagsskrá þessi mælir fyrir um. Stjórn Póstmannafélags Íslands skipar skoðunarmann reikninga sjóðsins. Varamaður hans skal tilnefndur af stjórn Starfsmannafélags Íslandspósts hf.
Endurskoðun reikninga sjóðsins skal fara fram á sama hátt og endurskoðun reikninga Íslandspósts hf.
Reikningsárið er almanaksárið. Stjórnin skal leggja reikninga fyrir skoðunarmann og endurskoðanda eigi síðar en 15. febrúar ár hvert til skoðunar og áritunar. Endurskoðun reikninga skal lokið fyrir 1. mars ár hvert.
Senda skal Ríkisendurskoðun og stjórn reikninga sjóðsins árlega, ásamt skýrslu stjórnar um styrkveitingar og framlög.

7.gr.
Styrk eða framlag úr sjóðnum skal veita með sérstakri ákvörðun stjórnar í hverju tilviki, annað hvort samkvæmt umsókn eða án umsóknar. Umsókn skal vera skrifleg og skulu í henni vera upplýsingar um, í hvaða skyni sótt er um styrk, svo og annað er máli skiptir að mati stjórnar. Ef styrkur eða framlag er veitt án umsóknar skal stjórn gera sérstaka greinagerð um tilefni og forsendur ákvörðunar.

8.gr.
Allir þeir, sem eru í hálfu starfi eða meira hjá Íslandspósti hf. geta átt rétt á styrkveitingu eða framlagi úr sjóðnum. Einnig er heimilt að veita styrk eða framlag til hópa starfsmanna eða verkefna á þeirra vegum, enda uppfylli meginþorri þeirra skilyrði samkvæmt 2.mgr. hér á eftir, að mati stjórnar.
Það er skilyrði fyrir styrkveitingu til einstaklings, að hann hafi verið starfsmaður Íslandspósts hf. í 5 ár samtals, en ef um sérstakar aðstæður er að ræða er stjórn heimilt að miða við styttri starfsaldur, þó skal starfsaldur að jafnaði ekki vera skemmri en 4 ár.
Heimilt er stjórn að víkja frá framangreindum skilyrðum í undantekningartilvikum.

9. gr.
Stjórn sjóðsins sér um ávöxtun sjóðsins og skal hann ávaxtaður á sem tryggastan hátt. Stjórnin skal leitast við að dreifa áhættu sjóðsins á hverjum tíma. Stjórninni er heimilt að semja við viðurkennd fjármálafyrirtæki um umsjón með varðveislu og ávöxtun sjóðsins.
Stjórninni er heimilt að fjárfesta í fasteignum í þeim tilgangi að ávaxta fjármuni sjóðsins á sem bestan hátt.

10.gr.
Heimilt er að breyta skipulagsskrá þessari, enda þarf samþykki allra stjórnarmanna til slíkra breytinga.
Komi fram tillaga um að leggja sjóðinn niður, skal stjórn sjóðsins samþykkja slíka tillögu, en jafnframt þarf slík tillaga samþykki meirihluta stjórnar Póstmannafélags Íslands og Starfsmannafélags Íslandspósts hf.
Í tillögu um niðurlagningu sjóðsins skal tiltekið hvert fé sjóðsins, sem til er við slit hans skuli renna, en fé hans skal þá ráðstafa til mannúðar- og líknarmála eða til hagsbóta fyrir starfsfólk Íslandspósts.
Tillögur um breytingar á skipulagsskrá þessari eða niðurlagningu sjóðsins skulu staðfestar í samræmi við ákvæði laga um sjóði sem starfa samkvæmt sérstökum skipulagsskrám

11.gr.
Skipulagsskrá þessi skal staðfest af sýslumanninum á Sauðárkróki í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 1125/2006, sbr. ákvæði laga nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.
Þessi skipulagsskrá kemur í stað skipulagsskrár nr. 21/2009 fyrir Póstmannasjóð.