I. KAFLI
NAFN OG TILGANGUR
1. gr.
Félagið heitir Póstmannafélag Íslands, skammstafað PFÍ. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagssvæði þess er landið allt.
2. gr.
Markmið félagsins er:
- Að gæta hagsmuna og réttinda félagsmanna.
- Að gera kjarasamninga fyrir félagsmenn sína við vinnuveitendur.
- Að stuðla að aukinni menntun og menningu stéttarinnar með útgáfu blaða, rekstri styrktarsjóðs, rekstri starfsmenntunarsjóðs, sumardvalarstaða eða á annan hátt.
- Að reka sjúkrasjóð samkvæmt sérstakri reglugerð þar um.
II. KAFLI
RÉTTINDI OG SKYLDUR FÉLAGSMANNA
3. gr.
Félagið er opið öllum sem starfa við póststörf enda greiði þeir tilskilin gjöld til félagsins. Með greiðslu félagsgjalds öðlast félagsmaður full réttindi í félaginu með þeim takmörkunum einum sem fram koma í lögum þessum.
4. gr.
Þeir sem ráðnir eru um stundarsakir, þrjá mánuði eða skemur hafa ekki kosningarétt né kjörgengi. En njóta að öðru leyti allra réttinda sem félagsaðild veitir. Allir félagsmenn hafa rétt til að kjósa um nýgerðan kjarasamning.
5. gr.
Allir félagsmenn PFÍ sem látið hafa af störfum fyrir aldurs sakir og hafa hafið töku eftirlauna, skipa sér í sérdeild innan félagsins, Eftirlaunadeild PFÍ.
Eftirlaunaþegar eru undanþegnir félagsgjöldum, hafa ekki kosningarétt eða kjörgengi nema innan sinnar deildar en njóta annarra réttinda félagsins samkvæmt þeim reglum sem um þau gilda.
Eftirlaunadeild kýs sér 5 manna deildarstjórn til tveggja ára í senn og skal fulltrúi hennar eiga sæti í trúnaðarráði.
Deildarstjórn kýs til tveggja ára einn mann og einn til vara til að mæta á trúnaðarráðsfundum PFÍ.
Makar látinna félagsmanna teljast aðilar eftirlaunadeildar í allt að fimm ár frá láti félagsmanns, en án kjörgengis.
6. gr.
Allir félagsmenn eru skyldir að hlýða lögum félagsins og fundarsamþykktum. Enginn félagsmaður getur skorast undan kosningu í trúnaðarráð eða til annarra starfa fyrir félagið nema hann færi rök fyrir því að hann geti ekki tekið starfið að sér. Á sama hátt er hver félagi skyldur að taka endurkjöri eða skipun í starf í eitt skipti.
7. gr.
Félagsmenn, sem verða atvinnulausir skulu halda félagsaðild og þeim réttindum sem er á færi félagsins að veita á meðan þeir eru atvinnulausir. Atvinnulausir greiði félagsgjald, en stjórn félagsins er heimilt að fella það niður að hluta eða öllu leyti.
III. KAFLI.
DEILDASKIPTING, KJÖR FORMANNS FRAMKVÆMDASTJÓRNAR OG KJÖR FORMANNS TIL TVEGGJA ÁRA
8. gr.
A: Kosning framkvæmdastjórnar. Kjörstjórn stjórnar kosningu og lýsir eftir framboðum til stjórnar.
Það ár sem kosning til formanns fer fram skal kjósa einn stjórnarmann úr 1. og 4. deild. Á næsta ári skal kjósa einn fulltrúa úr 1., 2. og 3. deild.
2015 skal kjósa einn fulltrúa úr 1., 2. og 3. deild til eins árs.
1. deild. Bréfberar, flokkstjórar og fulltrúar dreifingarstjóra landsbyggð.
Í deildinni eru allir sem vinna við útburð á pósti, flokksstjórar þeirra og fulltrúar dreifingarstjóra. Deildin kýs einn stjórnarmann og einn til vara.
2. deild. Póstafgreiðslumannadeild.
Í þessari deild eiga sæti allir póstafgreiðslumenn, póstvinnslumenn, varðstjórar, póstgjaldkerar og fulltrúar við póstafgreiðslustörf. Deildin kýs sér einn stjórnarmann og einn til vara.
3. deild. Deild stjórnenda og skrifstofufólks.
Í deildinni eiga sæti allir stöðvarstjórar, dreifingarstjórar, afgreiðslustjórar, deildarstjórar og skrifstofufólk í félaginu. Deildin kýs sér einn stjórnarmann og einn til vara.
4. deild. Póstmiðstöð Stórhöfða 32.
Í deildinni eiga sæti allir starfsmenn póstmiðstöðvar og útkeyrsludeildar nema þeir sem eru í deild 3. Deildin kýs sér tvo stjórnarmenn og tvo til vara.
5. deild. Fulltrúi trúnaðarráðs.
Kjörinn fulltrúi og einn til vara, kjörnir á fyrsta fundi eftir kosningar til trúnaðarráðs.
Stjórnin skiptir með sér verkum. Varaformaður, ritari , gjaldkeri og þrír meðstjórnendur.
B: Kosning formanns.
Formaður er kosinn beinni kosningu í félaginu til tveggja ára. Kjörgengi hafa allir sem hafa verið skráðir félagar í PFÍ í eitt ár. Kjörstjórn stjórnar kosningunni og lýsir eftir framboði.
Frambjóðendur skulu hafa meðmæli minnst 10 félaga úr hverri hinna fjögurra starfsgreinadeilda. Kjörstjórn úrskurðar lögmæti framboðs. Til að vera löglega kjörinn skal frambjóðandi hljóta minnst 50% greiddra atkvæða. Hljóti enginn 50% í fyrstu umferð skal kjósa aftur á milli tveggja efstu. Séu atkvæði jöfn þá skal hlutkesti ráða.
IV. KAFLI.
TRÚNAÐARRÁÐ.
9. gr.
Félaginu stjórnar trúnaðarráð, skipað formanni félagsins, framkvæmdastjórn og kjörnum trúnaðarmönnum vinnustaða. Ráðið er kosið til tveggja ára. Flytjist trúnaðarmaður milli svæða á tímabilinu tekur varamaður við. Trúnaðarmenn vinnustaða ásamt einum varamanni eru kosnir samkvæmt eftirfarandi svæðaskiptingu:
- Akranes og Borgarnes.
- Búðardalur og Snæfellsnes.
- Vestfirðir.
- Húnavatnssýslur og Skagafjörður Eyjaförður, Ólafsfjörður, Siglufjörður
- Þingeyjarsýslur og Vopnafjörður
- Austurland og Höfn
- Suðurland
- Vestmannaeyjar
- Suðurnes
- Pósthús á Höfuðborgarsvæðinu póstnúmer; 101 til 270.
- Útkeyrsla – Dreifing Höfuðborgarsvæðið.
- Póstmiðstöð – Skrifstofur Höfðabakka 9 og Stórhöfða 32
- Fulltrúi Eftirlaunadeildar.
Á svæðum sem hafa 50 starfsmenn eða fleiri skal fjöldi trúnaðarmanna vera samkvæmt lögum um vinnurétt.
- Kjörstjórn sér um kosningu fulltrúa í trúnaðarráð.
- Kosning fer fram í mars.
- Kosning skal vera leynileg og óhlutbundin.
- Kjörinn fulltrúi er sá sem flest fær atkvæðin og varamaður sá sem næstflest fær.
- Séu atkvæði aðalfulltrúa og varafulltrúa jöfn skal hlutkesti ráða.
- Allir félagsmenn að undanskildum þeim sem falla undir 4. grein eru kjörgengir og hafa atkvæðisrétt.
- Félagsmenn skulu settir á kjörskrá á því svæði sem þeir vinna þegar kjörskrá er samin.
- Kjörnir fulltrúar í trúnaðarráð gegna skyldum skv. 23. grein.
10.gr.
Þegar að loknum aðalfundi annað hvert ár skal formaður boða nýkjörið trúnaðarráð og framkvæmdastjórn saman. Formaður setur fundinn og stjórnar kosningu fundarstjóra og fundarritara. Trúnaðarráð kýs sér fulltrúa í framkvæmdastjórn og einn til vara. Þessir fulltrúar eru jafnframt oddvitar ráðsins. Framkvæmdastjórn er ábyrg gagnvart trúnaðarráði. Framkvæmdastjórn getur kosið eða skipað í nefndir sér til aðstoðar eftir þörfum.
11. gr.
Framkvæmdastjórn ákveður laun formanns og þóknanir til annarra starfsmanna. Framkvæmdastjórn er heimilt að ráða framkvæmdastjóra, setja honum starfsreglur og ákveða honum laun úr félagssjóði.
Framkvæmdastjóri skal hafa á hendi allan daglegan rekstur félagsins. Þau störf sem honum eru falin verður hann að vinna í samráði við framkvæmdastjórn.
12. gr.
Formaður og ritari skulu fyrir aðalfund ár hvert gefa trúnaðarráði skýrslu um störf framkvæmdastjórnar. Skal skýrslan samþykkt í trúnaðarráði áður en hún er borin undir aðalfund.
Gjaldkeri skal annast bókhald og fjárvörslu félagssjóðs og greiðslur.
Heimilt er að fela skrifstofu félagsins að annast greiðslur fyrir félagið.
Formaður skal árita alla reikninga.
Gjaldkeri skal leggja fram endurskoðaðan ársreikning félagsins fyrir framkvæmdastjórn í mars ár hvert. Skulu reikningarnir bornir upp til samþykktar í trúnaðarráði áður en þeir eru lagðir fyrir aðalfund.
Reikningsárið er almanaksárið. Framkvæmdastjórn skal leggja fram fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.
- Í fjárhagsáætlun skal eftirfarandi koma fram:
- Rekstraráætlun (tekjur og gjöld)
- Framkvæmdaáætlun (fjárfestingar og fjármögnun)
13. gr.
Framkvæmdastjórn boðar fundi í trúnaðarráði svo oft sem þurfa þykir. Trúnaðarráð komi saman a.m.k. einu sinni á ári.
Fundir í trúnaðarráði eru lögmætir séu þeir boðaðir með minnst tveggja daga fyrirvara og minnst 2/3 hlutar ráðsins séu komnir saman til fundar enda hafi varamaður verið boðaður í forföllum aðalmanns. Náist ekki saman lögmætur fundur samkv. framansögðu skal boða til nýs fundar með sólarhrings fyrirvara og er hann þá lögmætur án tillits til þess hve margir mæta. Trúnaðarráð getur ef þurfa þykir kosið sér verkhóp úr eigin röðum til sérstakra verkefna.
Trúnaðaráð kýs sér fundarstjóra og fundarritara og skulu þeir báðir undirrita gjörðabók ráðsins á hverjum fundi. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála í trúnaðarráði.
14. gr.
Allir félagsmenn eiga rétt á að skjóta málum sínum til framkvæmdastjórnar eða trúnaðarráðs er tekur ákvörðun um meðferð þeirra.
15. gr.
Nýkjörið trúnaðarráð skal á fyrsta fundi sínum kjósa eftirtaldar nefndir til tveggja ára:
- Kjörstjórn. Í henni skulu vera fimm menn og tveir til vara. Kjörstjórn annast atkvæðagreiðslur félagsins og kosningar nema þær séu verkefni aðalfundar.
- Fulltrúa og varamenn á þing BSRB
- Ritnefnd. Í henni skulu vera fimm menn.
- Verkfallsnefnd. Í henni skulu vera sjö menn og þrír til vara.
16. gr.
Samninganefnd
Samninganefnd félagsins skal skipuð 12 einstaklingum. Stjórn félagsins er sjálfskipuð og trúnaðarráð skipar í þau sæti sem eftir eru með tilliti til starfsdeilda félagsins.
- Formaður PFÍ skal vera formaður samninganefndar og varaformaður skipar í það sæti í forföllum hans. Nefndin kýs úr sínum hópi ritara fundargerða og varamann hans.
- Samninganefnd kemur fram fyrir hönd félagsins við gerð kjarasamninga. Samninganefnd hefur meðal annars umboð til þess að setja fram kröfugerð félagsins, gera áætlun um skipulag viðræðna um endurnýjun kjarasamninga, gera tillögur að samningum, taka þátt í samningaviðræðum og slíta þeim, óska milligöngu sáttasemjara um samningaumleitanir og undrrita kjarasamninga.
- Enginn nema samninganefnd og í umboði hennar undirnefnd eða formaður geta gert bindandi kjarasamninga fyrir félagið eða einstaka starfshópa innan þess.
V. KAFLI
AÐALFUNDIR OG FÉLAGSFUNDIR
17. gr.
Aðalfund félagsins skal halda í apríl ár hvert. Fundurinn er lögmætur sé til hans boðað samkvæmt 20. gr. Á aðalfundi skal formaður leggja fram skýrslu framkvæmdastjórnar um störf liðins árs og gjaldkeri endurskoðaða reikninga félagsins, skv. 12. gr. Kjörstjórn lýsi úrslitum kjörs til trúnaðarráðs og annarra starfa fyrir félagið.
Dagskrá aðalfundar skal vera þannig:
- Kosinn fundarstjóri og ritari
- Skýrsla stjórnarinnar um störf félagsins undanfarið starfsár
- Reikningar félagsins og sjóða fyrir liðið starfsár lagðir fram til samþykktar.
- Lagabreytingar ef tillögur liggja fyrir.
- Lýst kjöri stjórnar og trúnaðarráðs
- Kosning tveggja félagskjörinna skoðunarmana og eins til vara
- Kosning til annarra stjórna og nefnda sem lög félagsins gera ráð fyrir.
- Ákvörðun félagsgjalds og framlag til Vinnudeilusjóðs.
- Önnur mál.
18. gr.
Á aðalfundi skal kjósa í eftirtaldar nefndir:
- Orlofsheimilanefnd. Í henni skulu vera fimm menn sem kosnir eru árlega.
- Laganefnd. Í henni skulu vera fimm menn, og tveir til vara, kosnir árlega.
- Tvo skoðunarmenn reikninga félagsins og einn til vara, kosnir árlega.
- Þrjá menn í stjórn vinnudeilusjóðs og einn til vara til tveggja ára.
- Fimm menn í stjórn sjúkrasjóðs PFÍ og tvo til vara, skv. reglum sjóðsins..
- Tvo menn í stjórn starfsmenntunarsjóðs PFÍ og tvo til vara, skv. reglum sjóðsins.
19. gr.
Félagsgjöld skal ákveða á aðalfundi ár hvert og hvaða hundraðshlutfall félags- og vinnuréttindagjald skuli vera.
20. gr.
Framkvæmdastjórn boðar til félagsfundar þegar ástæða þykir til eða minnst 60 félagsmenn krefjast, enda tilgreini þeir fundarefni og framsögumenn.
Alla fundi skal boða með dagskrá með tveggja til sjö daga fyrirvara með auglýsingum á vinnustöðum, vefsíðum félagsins og tölvupósti.
Aðalfund skal boða á sama hátt með minnst viku fyrirvara. Fundur er lögmætur sé löglega til hans boðað.
21. gr.
Formaður setur fund og stýrir kosningu fundarstjóra og ritara. Fundarstjóri og formaður bera í sameiningu ábyrgð á því að fundarsköp séu haldin.
Við ítrekuð brot á almennum fundarsköpum er fundarstjórum heimilt að vísa viðkomandi af fundi.
Komi fram mál á fundi utan dagskrár getur fundarstjóri frestað fullnaðarafgreiðslu þess til næsta fundar.
VI. KAFLI.
TRÚNAÐARMENN.
22.gr.
Allir félagsmenn skulu hafa aðgang að trúnaðarmanni, félaginu skal skipt í vinnusvæði sem hefur einn trúnaðarmann hvert. Trúnaðarráð ákveður svæðaskiptingu. Trúnaðarmenn eru jafnframt fulltrúar í trúnaðarráði.
23. gr.
Kjörstjórn sér um kosningu trúnaðarmanna. Trúnaðarmenn skulu kosnir til tveggja ára. Kosningu skal lokið fyrir 1. apríl það ár sem kosning fer fram.
Sé kosningu trúnaðarmanna ekki lokið á tilskyldum tíma er framkvæmdastjórn heimilt að tilnefna trúnaðarmenn á viðkomandi svæði.
24. gr.
Framkvæmdastjórn er skylt að kalla trúnaðarmenn saman og halda námskeið fyrir þá eftir því sem þörf krefur.
VII. KAFLI.
FÉLAGSSLIT, LAGABREYTINGAR O. FL.
25. gr.
Til félagsslita þarf samþykki 3/4 allra félagsmanna. Félagsslit ná aðeins löglegu samþykki á aðalfundi.
26. gr.
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Skal það auglýst í fundarboði. Til þess að lagabreytingar öðlist gildi þarf 3/4 hluta greiddra atkvæða.
27. gr.
Með samþykki þessara laga falla úr gildi fyrri lög PFÍ.
(breytingar á lögum þessum voru síðast gerðar á aðalfundi PFÍ 20. september 2021.